Framfærslukostnaður?

Þegar við keyptum húsið okkar fórum við í gegnum svokallað greiðslumat hjá Íbúðalánasjóði og við útfyllingu þess var klausa sem kallaðist framfærslukostnaður og þar var talið upp tómstundir og skemmtanir og fleira í þeim dúr. Ég fyllti þetta samviskusamlega út og sendi en allt kom fyrir ekki, við stóðumst ekki greiðslumat. Ég hringdi í þjónustuverið þar sem indælis kona aðstoðaði mig við útfyllingu skjalsins. Þegar við komum að þessari klausu taldi ég upp hversu miklum peningum við eyðum að jafnaði hvern mánuð í hitt og þetta. Að sjálfsögðu samkvæmt bestu vitund. Hún hváði hinum meginn á línunni þegar ég var búin að telja allt upp... Eyðið þið ekki meiri pening en þetta með öll þessi börn??  Ég sagðist nú ekki gera það því eins og allir vita erum við ekkert tekjuhæsta fólkið í samfélaginu. Maðurinn er við nám í KHÍ auk þess að kenna í grunnskólanum hérna og ég er matráður á Dvalarheimili aldraðra. En þar stóð nefnilega hnífurinn í kúnni... Við eyddum ekki nógu miklum peningum til að standast greiðslumatið. Samkvæmt Hagstofu Íslands er lágmarks framfærslukostnaður fjölskyldu með fjögur börn rétt undir tvöhundruð þúsundum króna. Ég komst því að þeirri niðurstöðu þá að vegna þess að ég er ekki keppandi í lífsgæðakapphlaupi Íslendinga er ég ekki maður með mönnum... Ég er ekki með kreditkort og við eigum ekki flatskjá. Við erum ekki með neitt á raðgreiðslum og förum ekki til útlanda í hverju fríi. Ég er dreifbýlistútta af lífi og sál.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband