Fjölskyldan.

Um næstu helgi eru fimm ár síðan ég datt seinast í það sem þýðir að eftir tvær vikur er ég búin að vera edrú í fimm ár. Ég tel nefnilega frá fyrsta fundi. Það má teljast mjög gott að ná þeim tíma en að sjálfsögðu er það ekki búið að ganga áfallalaust. Á þessum fimm árum hef ég eignast mikið þó síst megi teljast til veraldlegra eigna. Jú, ég á hús og bíl, sjónvarp og sófa... En það sem mér finnst mest um vert eru fjölskyldan og vinirnir. Ég á góða stórfjölskyldu þó meingölluð sé enda held ég að allar stórfjölskyldur dragi sína geðveiluna hver. En við stöndum þétt upp við bakið á hvort öðru og kærleikurinn er ótvíræður og mér finnst það gott... í hófi. En litla sæta fjölskyldan mín er yndisleg, ég á góðan mann sem ég á stundum skil ekki hvernig hann þolir mig og mín köst, ég á fjögur yndisleg og heilbrigð börn sem eru blessunarlega uppátækjasöm eins og móðirin. Og vinirnir eru fáir en traustir og góðir. Ég hef komið mér upp góðu öryggisneti eins og er talað um á AA-mállýskunni.

Þegar eitthvað kemur upp á (og í mínu tilfelli kemur mjög oft eitthvað uppá því ég er svoddan dramatík) eru þau öll tilbúin að hlusta á mig og styðja... Nema þegar ég minnist á það að mig langi í hund. Þá fyrst verður allt vitlaust og allir hafa eitthvað til málanna að leggja. Að sjálfsögðu hafa þau eitthvað til síns máls en mér er spurn... Af hverju er eins og ég góli upp nafn hins illa í kaþólskri messu þegar ég minnist á það að mig langi í hund?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristjana Atladóttir

Til hamingju....fyrirfram.

Og þessari spurningu get ég svarað. Þegar þú talar um að þig LANGI í hund vitum við hin að þú ert líklega búin að festa þér hund einhvers staðar og ansi langt komin með að flytja hann heim til þín. Og okkur þykir bara öllum svo vænt um þig að við viljum ekki að þú bætir hundi ofaná allt sem þú hefur að gera þar sem þú annar því ekki fyrir.  

Kristjana Atladóttir, 24.1.2007 kl. 18:05

2 Smámynd: Huldabeib

Mér finnst þetta komment þitt nú barasta algjör óþarfi, kæra vinkona. Ég veit alveg að betur má fara ýmislegt hjá mér en batnandi manni er best að lifa. Ég hefi ekki fest mér hund og geri mér alveg grein fyrir hversu mikil vinna felst í því að hafa hund og þó ég hafi sýnt af mér hvatvísi í fortíðinni er ekki þar með sagt að svo sé um að ræða hér... því ef svo væri hefði ég fengið mér hundinn í haust. Mér sárnaði.

Huldabeib, 24.1.2007 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband