15.2.2007 | 10:34
Sjálfhverfa.
Í mínum huga er sjálfhverfa ekki slæm innan skynsamlegra marka, eins og svo margt annað. Að hafa áhuga á því sem viðkemur manni sjálfum eða þeim sem næst standa manni er að mínu mati gott. Eins og oft áður hefur komið fram er fátt verra fyrir börn en afskiptaleysi. Að sýna börnunum áhuga og að vilja taka þátt í þeirra lífi gefur þeim sterkari sjálfsmynd og er það ekki hlutverk okkar foreldra að reyna að koma börnunum betur út í lífið en við komum sjálf? Ég vil alla vega leggja þann skilning í uppeldið. Ég hef oft rekist á það að stelpurnar mínar eru með sterkari sjálfsmynd og sjálfstraust en ég sjálf hafði á þeirra aldri sem ég vil túlka sem svo að ég sé að gera eitthvað rétt. Ekki vil ég samt ganga svo langt að titla mig móður ársins, langt í frá en ég er á réttri leið. Ég er ekki að segja að mín eigin móðir hafi klúðrað mínu uppeldi, síður en svo því ég væri ekki stödd þar sem ég er nema fyrir þann grunn sem hún lagði mér.
Það er nú ekki langt síðan að ég áttaði mig á því að fylgja norminu er ekkert svo flókið fyrirbæri. Þó mér hafi tekist að flækja það fyrir mér alltaf er ég að átta mig á því að fylgja norminu er að setja sér sín norm sjálfur. Það gengur ekki fyrir mig að fylgja norminu sem hún Sigga er með því hún Sigga er kannski ekki alkahólisti með geðhvörf og kvíðaraskanir. Maðurinn hennar Siggu er kannski ekki heldur í námi hjá KHÍ og meðfram því að vinna sem leiðbeinandi í grunnskóla. Þau eiga kannski ekki heldur fjögur börn undir tíu ára aldri. Þess vegna er kannski ekki alveg hægt fyrir mig að setja þau viðmið sem hún og hennar maður eru með. Að öðlast sátt með það sem maður á sjálfur og að hlúa að því af fremsta megni er toppurinn. Þó svo að það eigi eftir að rísa sólpallur við húsið einhverntíma og við eigum einhverntíma eftir að fara til útlanda í sumarfrí þá er ég bara nokkuð sátt við mína veraldlegu hluti í dag því fyrir fimm árum síðan átti ég ekki neitt. Og hún Sigga hefur kannski aldrei þurft að vinna sig upp úr öskustónni eins og ég og kannski dáist hún að mér fyrir að geta það.
Athugasemdir
Sammála síðasta ræðumanni
Það eru bara svo mikið af Siggum sem hafa það allt öðruvísi en hinar Jónurnar ... skiljú mí?
Badda (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 00:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.