21.2.2007 | 13:34
Húsmæðraorlofið. Part one...
Þegar ég kem heim svona endurnærð og fín finnst mér rétt að láta ykkur vita hvernig ferðin var. Þó ég gæti sagt í einu orði hvernig mér fannst hún þá ætla ég að fara út í smáatriðin ykkur til yndisauka. Er ekki sagt að fall sé fararheill? Það reyndist allavega vera raunin hjá mér því ég byrjaði á því að villast í flugstöðinni í Keflavík... tvisvar. Og það áður en ég gat skráð mig inn. Svo hófst ferðalagið í gegnum flugstöðina og ég gekk hægt til að villast ekki aftur en mér tókst það nú samt einu sinni í viðbót. Ég svaf alla leiðina út enda hafði ég þrjú sæti alveg fyrir mig og gat komið mér vel fyrir. Þegar til Kastrup kom fylgdi ég bara múgnum og endaði í faðminum á Kidda bró sem var sætastur eins og alltaf. Svo fórum við með Metró eða einhverju lestarfarartæki inn í borgina. Og við gengum heim til hans frá stoppistöðinni en þar sem hann er svo vanur að labba allt í borginni (annað en dreifbýlistúttan undirrituð ) þá hafði ég varla undan að skoða í kringum mig og var næstum búin að snúa mig úr hálslið meðan ég skakklappaðist á eftir honum. Hann Kiddi býr í Christianshavn sem er voða skemmtilegt hverfi með svona Kanal eða síki? Alla vega það eru bátar þar. Nema svo komum við í húsið sem hann býr og það er svona í þríhyrning með garði í miðjunni, voða skemmtilegt hús. Mér voru afhentir lyklar ef ske skyldi að við yrðum viðskila meðan ég var í Köben sem mér finnst algjör brandari því það finnst varla áttavilltari manneskja en ég (nema kannski Bára frænka) og ef við hefðum orðið viðskila hefði ég aldrei ratað þangað. Kiddi var með svar við því... ég tæki bara taxa. Sem myndi líka ekkert getað hjálpað mér því ég er gjörsamlega með meinloku á hvað gatan heitir sem hann býr við. En samt er allur varinn góður og ég tók við lyklunum.
Á föstudaginn ákváðum við að fara í Field's sem er Smáralind Kaupmannahafnar. Og við vorum þar í heila sex klukkutíma og þar var verslað á börnin mín svo það væri ekkert að flækjast fyrir okkur um helgina. Illu er best af lokið held ég að Kiddi hafi sagt. Konan sem afgreiddi okkur í H&M sá það strax að um Íslending væri að ræða og ég vil meina að þar hafi komið til íslenska fegurðin sem allir vita að ég get ekkert að gert, ég fæddist bara svona falleg, en ekki magnið af barnafötum sem við bárum að afgreiðsluborðinu. Við röltuðum um Bilka og fleiri búðir sem ég man ekki nöfnin á en enduðum aftur í H&M því eitthvað fór glansandi íþróttagallinn minn og pinnahælarnir að stinga í stúf við uppdressaða danina. Eða var það íslenskt kaupæði sem rann á mig? Um kvöldið þegar við vorum búin að jafna okkur á þessu ævintýri okkar í hinni dönsku Smáralind ákváðum við að skella okkur á kaffihús til að næra okkur aðeins. Þar áttum við indælisstund yfir kertaljósi og góðum mat. Hann drakk rauðvín og ég reykti og ég fékk það á tilfinninguna að við værum sannir heimsborgarar þar sem við sátum þarna og töluðum saman um gömlu og góðu dagana okkar heima á Eskifirði.
Á laugardaginn lögðum við fyrir okkur Strikið og við sem ætluðum aðeins að skjótast inn í H&M til að kaupa nauðsynjar eins og gammósíur og undirboli komum að afgreiðsluborðinu hlaðin pinklum þó stöku gammósía eða undirbolur gægðist út úr fatahlaðanum. Stúlkan sem afgreiddi okkur þar brast í taugaveiklishlátur og móðursýki þegar að því kom að ég ætti að borga og hún hafði aldrei afgreitt neinn áður með svona langa kvittun. Og eins og úlfur sem hefur bragðað blóð varð ég óstöðvandi eftir þá ferð... og endaði á því að versla helling af klæðum í næstum hverri einustu búð á Strikinu. Það mátti sjá æðið í augum mér þar sem ég lét augun renna upp og niður Strikið reiknandi út hversu mikið væri eftir á kortinu og hvaða búðir ég átti eftir. Um kvöldið var skipulagt að fara út að borða á frönskum veitingarstað sem heitir Grísirnir þrír og við drifum okkur heim til að ákveða í hvaða nýju flík skyldi strunsað út á lífið.
Athugasemdir
Hæhæ,vá hvað ég öfunda þig að hafa farið í verslunarferð til köben og að versla í H&M er bara að skemmtilegasta sem maður hefur og getur gert því þar se allt til alls fyrir börnin okkar.
Petra, 21.2.2007 kl. 22:49
Öfunda þig líka ferlega að hafa verslað helling í Köben og í H&M, öfund, öfund og aftur öfund:( en þetta hefur greinilega verið ferlega gaman elskan og það er fyrir mestu:) og það er ekkert töff að öfunda svo ég er snarlega hætt því:)
See you later sæta.
Badda (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 00:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.