27.8.2007 | 18:47
Draumur.
Hún var nýflutt í bæinn, komin með vinnu í kjörbúðinni í hverfinu. Hún þekkti ekki neinn. Hann vann á lagernum og var greinilega hrifinn af henni. Hann var sá allra mesti hrakfallabálkur sem hún hafði kynnst. Honum tókst oftar en ekki að skella handlyftaranum á tærnar á sér, keyra bílnum utan í þrönga innkeyrsluna á lagerinn, missa úr höndunum á sér alla smákassana rétt áður en hann kom þeim í hillurnar. Það er ekki hægt annað en að finnast svona menn krútt. Þau urðu vinir frá fyrsta degi. Hún var nógu heiðarleg til að segja honum að það væri enginn séns á að það yrði meira á milli þeirra en vinátta. Hann hét Pedro og hafði strokið að heiman 15 ára. Hann hafði aldrei haft áhuga á neinum vandræðum. Hann átti lítið hús í verkamannahverfinu, sá um að garðurinn væri fínn og málaði yfir fúnandi gluggana. Sjálfsagt mætti segja að húsið bar höfuð og herðar yfir hin húsin miðað við umhyggjuna sem eigandinn sýndi því þó vissulega væri hægt að sjá að þar bjó einstaklingur með lág laun. Hann kynnti hana fyrir hinu unga fólkinu í hverfinu eða þeim sem ekki voru í ruglinu. Besti vinur hans hét Jeff og var sjómaður. Hún varð hrifin af honum við fyrsta bros. Hann var stór og vöðvastæltur og útitekinn, henni leið eins smápeði við hliðina á honum. Þau miðuðu upphandleggsvöðva hvors annars og hlógu að mismuninum. Þessar hlýju sumarnætur í þessum mislita hópi fólks sem ekkert átti í raun sameiginlegt nema að vera ung og elska lífið urðu þær skemmtilegustu sem hún hafði upplifað. Hennar dýrmætasta minning. Vinnan með Pedro. Brosið hans Jeff. Leikir í sundlaugum og sjó. Hvernig strákarnir stukku af bryggjunni og Pedro lenti í eina grútarbrákinni í öllum flóanum. Hvernig hún lærði að elska lífið og vini.
Ef ég vissi ekki betur myndi ég halda að ég hefði fengið að skyggnast inn í endurminningar einhverrar konu frá einhverri borg því svo lifandi var þessi draumur að ég var væmin þegar ég vaknaði.
Athugasemdir
Þetta er eins og upphafið að bíómynd eða skáldsögu. Mikið áttu gott að þig skuli dreyma svona í smáatriðum og MUNA þau!
Kveðja að norðan
Anna Margrét (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 14:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.