28.9.2007 | 15:15
Finnst þér góðir bananar?
Bara að vita að maður er ekki einn kemur manni vel af stað í hetjulegri hvursdagsbaráttunni. Þó vissulega eigi ég góða að, án þeirra væri ég eflaust ekki á lífi, er sumt sem þau ekki skilja þó þau séu öll að vilja gerð.
Ekkert frekar en að það er hægt að útskýra hvernig alkóhólismi er fyrir þeim sem ekki er það. Ekki veit ég neitt um það hvernig það er að vera bara aðstandandi alkóhólista, þó ég hafi alist upp í alkóhólísku umhverfi í einhvern tíma í minni barnæsku. Ég get ekki gert mér í hugarlund hvernig það er ef barnið mitt væri alkóhólisti (ef Guð lofar prófa ég það aldrei) því ég hef aldrei staðið þeim megin við borðið. Vissulega var ég á tímabili maki alkóhólista en mér finnst það ekki sambærilegt því á þeim tímapunkti var ég alveg jafn sjúk og hann og þar af leiðandi tilfinningalega dofin. Það er bara ekki sambærilegt finnst mér að vera ódrukkinn aðstandandi sem er ekki alkóhólisti og kafdópaður aðstandandi sem er alkóhólisti sjálfur. En það er bara mín skoðun og þarf ekkert að vera túlkuð sem heilagur sannleikur.
Ekkert frekar en það er hægt að útskýra þunglyndi fyrir þeim sem á ekki við þunglyndi að stríða. Þunglyndi er mjög persónubundinn sjúkdómur vegna þess að um tilfinningar er að ræða og þær eru eins fjölbreyttar og stjörnurnar eru margar. Hversu erfitt það er að taka þátt í daglegu amstri, hversu mikið manni finnst maður fyrir, hversu miklu manni finnst maður vera að missa af, hversu mikið maður vill taka þátt en kemst ekki yfir þröskuldinn. "Bara að standa upp og byrja" er bara stundum ekki hægt sama hversu lítið það er sem þarf að byrja á. Stundum er sturta óyfirstíganlegur þröskuldur. Hversu mikið samviskubit maður fær af því að vera byrði, hversu mikið manni finnst maður vera að bregðast, hversu mikið sem maður vill gera hlutina eins og á að gera þá er bara getan ekki til staðar. Vissulega er alltaf hægt að fara út í klisjukenndar útskýringar en það kemur ekki tilfinningunni til skila. Eða bregða fyrir sig líffræðilegri, erfðafræðilegri eða læknisfræðilegri útskýringu á ástandinu sem maður er staddur í.
Ekkert frekar en það er hægt að útskýra Kvíða fyrir þeim sem verður aldrei heltekinn af honum. Kvíða sem ekki hægt er að sefa með rökum eða skynsemi. Kvíðasjúklingurinn hlustar á rökin og heyrir skynsemina en samt sem áður herðist á hnútnum, kökkurin stækkar og vöðvaspennan eykst. Á endanum skammast hann sín fyrir kvíðann og fer að fela hann, láta eins og rökin og skynsemin hafi haft yfirhöndina. Þangað til að líkaminn neitar og fer að eiga erfitt með svefn, svitna og kólna til skiptis, skjálfandi hendur, ofanda, hjartsláttatruflanir og svo mætti lengi vel telja. Þá tekur aðstandandinn eftir því og rökin og skynsemin er tekin upp á borðið aftur og skömmin margfaldast og aftur byrjar feluleikurinn. En hafið í huga að ég er að tala um mína eigin reynslu af Kvíða.
En myndi manneskjan sem þú ert að reyna að útskýra þetta allt saman fyrir virkilega skilja þig og átta sig á tilfinningafléttunni?
Hvernig mynduð þið lýsa bragðinu á banana fyrir þeim sem ekki hefur smakkað banana?
Athugasemdir
Veistu Hulda beibið mitt að þú kemur þessu ótrúlega vel frá þér. Þetta er eins og talað úr mínum munni og ég skil svo vel hvað þú ert að fara með þunglyndið og kvíðann!
Mikið kemur þú vel fyrir þig orði! Eins finnst mér þú ótrúlega dugleg og sterk.
Knús til þín sæta spæta! :D
Magga (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 20:38
Vá, hvað þetta er vel orðað hjá þér.
Ég hef líka lært það í gegnum tíðina að vera ekkert að segjast skilja hvað aðrir eru að ganga í gegnum ef ég hef ekki gengið í gegnum það sjálf heldur að vera til staðar og hlusta.
Ég sendi þér knús.
Rósa Björg (IP-tala skráð) 30.9.2007 kl. 16:08
Þessi færsla er eins og ég hafi skrifað hana sjálf. Ég kannast við allt sem þú talar um. Call me :)
Anna Margrét (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 11:16
Sammála.
Hef svo oft í gegnum tíðina tuðað um akkúrat þetta.Aðstandendum stendur ekkert til boða hér á landi en eru þó búnir að fara í gegnum helv. jafnvel í áratugi.
Gott blogg,takk fyrir mig.
Maggan
Margrét (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.