27.4.2008 | 20:06
Tómstundir barna
Eins og þið vel vitið erum við hjónaleysin að ala upp fjóra krakkagrislinga og einn hund. Það er flókið mál og dýrt að ala upp börn í dag. Nú er svo komið að ég sé ekki hvernig ég á að geta gefið börnunum mínum það sem þau sjálf vilja og er hollt og gott fyrir hvern sem er að gera; æfa íþróttir. Stelpurnar okkar vilja semsagt æfa fótbolta sem er gott mál. En svo ég fari aðeins yfir þetta með ykkur þá var það í fyrra sem þær fengu að prófa sund, með æfingargjöldum og tilheyrandi fatnaði upp á mörg þúsund krónur en áhuginn entist ekki nóg til að mæta á æfingarnar auk þess sem alltaf var verið að skipta um þjálfara. Í hitteðfyrra keyrði ég 100 km einu sinni í viku til að leyfa þeim að æfa ballet upp á Héraði en áhuginn entist ekki út það tímabil þrátt fyrir tátiljur og tjullpils og hnúta í hárið. Ekki er hægt að hanka mig á því að þær fái ekki hvatningu í þessu frá mér því ég tók meiri þátt í balletæfingunum en þær sjálfar í endann til að hvetja þær!! Þær eru núna í tónskólanum að æfa píanó og gítar og er ábyrgðin á því námi gjörsamlega á þeirra eigin ábyrgð og það eina sem við gerum er að mæta á nokkra tónfundi og borga rúmar 20 þús krónur á önninni. Ég hef ekki heyrt þær æfa sig heima í nokkrar vikur. Nú einnig urðu skíðin vinsæl í vetur og hefur borið á góma að fara að æfa þau líka.
Ef, og ég segi EF þær fá að æfa fótbolta þá eru æfingargjöld x mikill peningur á tímabili í æfingargjöld sem er gott og blessað því auðvitað verður góður þjálfari að fá eitthvað fyrir snúð sinn. En þetta eru stelpur, við skulum ekki gleyma því, þess vegna verður fatnaðurinn að vera í stíl við skóna og skórnir í stíl við skóna sem allar hinar stelpurnar eru í. Að ógleymdum mótum og ferðum sem við verðum auðvitað að taka þátt í með að keyra og sækja og nesta og og og og... Þannig að upphæðin er orðin töluvert meiri en bara æfingargjöldin. Svo eru það skíðin... þá eru það æfingargjöldin og fatnaðurinn auk skíðabúnaðarins sem ekki er ódýr svo og mótin og keppnir... Þið getið nú eflaust lagt þetta saman og fengið sömu svimandi háu upphæð og ég.
Og þá kemur að því sem ég er að velta fyrir mér... Er ég slæmt foreldri ef ég segi nei við æfingum íþrótta? Eru íþróttir ekki enn ein forvörnin sem börnin mín þurfa til að halda sér á mjóa en beina veginum? Er ekki markmið mitt sem foreldri að koma þessum einstaklingum sem heilustum út í þjóðfélagið? Og svo að lokum.... hver getur sagt nei þegar þær koma svona út úr búningsklefanum tilbúnar í fyrsta mótið sitt??
Athugasemdir
spurning að leyfa skvísunum að velja sér eitthvað eitt áhugamál og hafa sem skilyrði að þær verði að mæta á allar æfingar (nema þegar/ef fjölsk. fer í frí á tímabilinu), hvort sem það eru íþróttaæfingar eða tónlist. Þegar ég var í fótboltanum "á sínum tíma" þá var þjálfarinn með þau skilyrði að til að maður fengi að fara með í keppnisferðir þá þyrfti maður að mæta á allar æfingar.
kv. frá tilvonandi fótboltamömmu (þarf bara að bíða í 1 ár með að skrá stráksa á æfingar)
Hulda P (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 02:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.