Þunglyndi.

Ég er lífsglöð, bjartsýn og sátt við tilveru mína. Sumir myndu jafnvel lýsa þessu ástandi mínu sem hamingju. Samt er alltaf einhver undirliggjandi depurð, jafnvel sorg þegar verst lætur, sem dregur úr þessari sátt minni. Af hverju það stafar veldur mér hugarangri á stundum sem þessari þegar ég finn fyrir þessari sorg sem á sér enga ástæðu í þeim aðstæðum sem ég er stödd en það bíta ekki á hana nein rök. Hún er bara þarna og grefur um sig þangað til ég er gegnsýrð og máttlaus. Ég hef aldeilis afbragðs rök gegn því að vera sorgmædd.

Ég er hamingjusamlega gift góðum manni sem er jafnmikill vinur minn og hann er elskhugi minn, honum get ég treyst fullkomlega fyrir sjálfri mér og öðru sem mér viðkemur. Ég sé fram á að eldast með honum án þess að þessar tilfinningar dofni eða breytist í andstæður sínar. Ég á fjögur heilbrigð og afspyrnu falleg börn sem eru vel gefin og kurteis. Ég er stolt af afkvæmum mínum og get fullvissað sjálfa mig um að ættin deyji ekki út og afkomendur mínir muni lifa af í baráttu lífsins. Ég á hús sem ég get með sanni kallað heimili mitt, stað í heiminum þar sem ég finn fyrir öryggi og friði. Hvað meira gæti ég óskað mér?

Þessari sorg eða depurð tengi ég oftast við glötuð tækifæri unglingsáranna, missi á frelsi ungdómsins. Samt eru rök á móti þeirri hugsun því ég veit að tækifæri æskunnar stóðu mér til boða eins og hvers annars, jafnvel fleiri tækifærum en mörgum öðrum því ég er vel gefin og allt sem ég tek mér fyrir hendur heppnast vel. En ég tapaði þessum tækifærum því ég kunni ekki að fara með frelsið og trúði ekki á mátt minn eða megin. Ég þekkti sjálfa mig ekki og mér leið ekki vel í eigin skinni. Ég leitaði á náðir Bakkusar og eyddi mínum dýrmætustu árum með honum. Ég barðist fyrir tilverurétti mínum með andfélagslegri og á stundum ólöglegri hegðun með misgóðum árangri. Ég varð ólétt þrátt fyrir að halda að ég gæti ekki eignast börn og ákvað þess vegna að eiga barnið. Ekki vegna mín, því ég vildi á þessum árum ekki verða móðir eða bera ábyrgð, heldur vegna barnsins sem greinilega Æðri Máttur vildi troða í heiminn. Það kom í ljós að barnið var ekki eitt heldur tvö þannig að þegar ég gerðist móðir var það tvöföld ábyrgð og að mér fannst tvöfaldar áhyggjur. Ég reyndi á þeim árum að gera allt rétt en þegar ég þekkti ekki sjálfa mig né hafði áhuga á því, hvað þá líkaði við sjálfa mig varð þetta allt of erfitt og ég leitaði á náðir Bakkusar aftur. Æðri Máttur ákvað að grípa inn í aftur með því að gefa mér annað barn. Og þar sem ég ein hafði um það að segja hvort það barn kæmi í heiminn ákvað ég, í þrjósku minni og uppreisn að það myndi líta dagsins ljós. Ég var skíthrædd um að bregðast því barni eins og ég hafði brugðist hinum tveimur. Ég tók ákvörðun fyrst þá um að ég skyldi bera fulla  ábyrgð í þetta skiptið og vera móðir í öllum þeim skilningi sem það orð ber með sér.

Ég kynntist manni stuttu eftir að ég reis upp úr stuttum endurkynnum við Bakkus. Sá maður sá í mér eitthvað sem ég trúði ekki að ég ætti. Hann bar virðingu fyrir mér þó ég gerði það ekki sjálf. Hann elskaði mig meira en ég sjálf  hafði nokkurn tíma gert. Hann taldi mér trú um að ég gæti alið öll börnin mín upp þrátt fyrir að ég hafði enga trú á því sjálf. Ég fékk fyrstu börnin mín til mín aftur og hann elskaði þau eins og sín eigin. Ég er búin að vera edrú núna í sjö ár og mér líður vel í eigin skinni og meira en það stundum og þarf ekki lengur að berjast fyrir tilverurétti mínum.

En þá komum við aftur að þessari undirliggjandi tilfinningu og stundum byrjar hún með hugsun um að ég eigi þetta allt ekki skilið. Ég hafi ekki unnið til þess á nokkurn hátt að vera svona hamingjusöm. Ég sé ekki þessa alls virði. Og þá kemur depurðin og í kjölfar hennar sorgin og ég reyni að beita rökum og tala sjálfa mig til en ég ræð ekki við þær systur. Þegar sorgin nær tökum á mér get ég ekki annað en fundist ég föst í búri, eins og vængstýfðum fugli eða innilokuðu dýri. Og það er slæm tilfinning því hún er í engan máta í takt við aðstæður mínar.

Hvernig útskýri ég þessa tilfinningu fyrir ástvinum mínum án þess að gefa þeim þá tilfinningu að þeir séu veiðimaðurinn sem lokaði mig inni? Að þessi tilfinning tengist miklu frekar  sjálfsásökun fyrir eitthvað löngu liðið frekar en þeirri staðreynd sem ég lifi við í dag? Að mig langi til að víkka sjóndeildarhringinn með því að upplifa eitthvað nýtt, að upplifa frelsi til að fara eitthvert sem ég hef aldrei farið áður? Með þeim en ekki án þeirra?  Ekki til að forðast vandamálin sem hversdagsleikanum fylgi heldur til að takast á við þau í öðru umhverfi? Að mig langi til að finnast ég meira lifandi án þess að gefa í skyn að mér finnist ég dauð? Að mig langi í meiri lífsgleði og víðari tilveru? Að mig langi til að upplifa meiri hamingju án þess að kasta rýrð á þá hamingju sem ég hef?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Sæl fagra frú, svona skil ég málið;

Sumir eru bara fuglar í búri, held að það sé hluti af okkur öllum að einhverju leyti. Það er hugarástand sem er söknuður yfir glötuðum tækifærum bæði í fortíð og mögulegri framtíð. Hugrenningar af þessu tagi eru ágætar, en ítrekuð ástundun leiðir til að ástandið getur versnað. Úr getur orðið sjálf-fæðandi spírall sem í daglegu tali kallast þunglyndi. Þegar nokkuð er á liðið bætist síðan viðbótarsöknuður við yfir þeim tíma sem fór í bollaleggingarnar sjálfar  -- sem flokkast að sjálfsögðu yfir glataðan tíma. Þetta eru heilaæfingar gáfaðs fólks með kröftugt ímyndunarafl og hressan örgjörva vinstra meginn í perunni sem elskar ýmsa útreikninga á tilverunni í fortíð og framtíð. Gífurlegt áreiti nútímans ss: veruleikahönnun fjölmiðla, auglýsingar, fréttir, flóknara samfélag os. frv. ýtir undir vangaveltur af þessu tagi og flytur sumt fólk yfir í vinstra heilahvelið þar sem útreikningar og vangaveltur eru stundaðar. "Núið" býr hinsvegar hægra megin þar sem úrvinnsla skynfæranna hellist inn í allri sinni dýrð. Þar er ekki slegið mælistikum á hlutina eða þeir flokkaðir niður á kassa og þar er gott að vera. Þar býr gleðin og hamingjan, og vafalaust Guð sjálfur hjá þeim sem á hann trúa. Ein af frumreglum þunglyndra er að einfalda líf sitt, það styður þessar hugmyndir. Ritaðar hafa verið sjálfhjálparbækur eins og t.d The power of now, þar sem höfundurinn Echart Tolle lýsir upplifun sinni þar sem hann hættir að lifa í tilbúnum heimi sársauka og kvíða og fyst búferlum yfir í núið í einu vetfangi sem umbyltir lífi hans algerlega.

Mig langar að benda á þennan frábæra fyrirlestur þar sem heilasérfræðingur lýsir eigin heilablóðfalli og dregur upp mynd af persónuleika heilans og mismunandi persónuleika heilahvelanna. http://www.ted.com/index.php/talks/jill_bolte_taylor_s_powerful_stroke_of_insight.html 

Mín tillaga er að sú að þú skulir ekki hugleiða of mikið, finndu þér viðfangsefni og framkvæmdu og njóttu þess. Leitaðu samvista við jákvætt og skemmtilegt fólk. Lifðu í núinu en ekki í vinstra heilahvelinu. Ef þú óttast þunglyndi skaltu leita þér læknis hiklaust ef þú trúir því að það geti hjálpað. Sumir eru svo lánsamir að komast fljótt yfir þunglyndi á byrjunarstigi með hjálp lyfja. Það breytir því ekki að hver er sinnar gæfu smiður og maður getur ákveðið nokkuð hvernig manni líður.

Ólafur Eiríksson, 24.5.2009 kl. 04:39

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er bipolar af verstu gerð, en það sem hjálpaði mér mest var að hætta að leita skýringa á vanlíðaninni í fortíðinni. Ég held við gerum það ósjálfrátt, vegna þess að við skiljum ekki af hverju við erum svona.  Ég held að skýringin sé hreinlega efnafræðileg en ekki einhver atvik. Sjálfsvorkunin leiðir mann í slíka þanka og þannig líður manni á einhvern hátt betur með ástandið. Sumir finna sér jafnvel sökudólga og stundum er öll famelían með nagandi samviskubit og telur sig seka á þessu vegna framkomu hins sjúka og fullyrðinga í þá veru.  Þeyta er eins með aðstandendur þar og með aðstandendur alkohólista, sem leitar endalaust skýringa og réttlætinga á drykkju sinni. Þar er rökum tilverunnar snúið á haus. Ég drekk af því að ég á svo slæman maka, ég drekk vegna fjárhagserfiðleika eða félagsfælni, en ekki að menn séu félagsfælnir blankir og í heimiliserjum af því að þeir drekka, sem er nær lagi. Hvort tveggja eru þetta egósjúkdómar.

Ég er þurr alki líka og vandséð hvort ég er svona af því að ég drakk eða hvort ég drakk af því að ég var svona. Það skiptir kannski ekki höfuð máli hvort er, en vert að hugleiða. Ég vil benda þér á að verða þér út um bækurnar hans Eckhart Tolle og lesa. Þær heita mátturinn í núinu og sérstaklega mæli ég með "Ný Jörð."  Þú verður margs vísari við þann lestur.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.5.2009 kl. 05:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband