1.1.2007 | 13:52
Allt í góðu lagi...
Það varð svolítið kalt úti í nótt og þegar ég vaknaði í morgun var svolítið kalt inni í húsinu mínu. En þar sem ég á nú alveg forláta hlýjan flísslopp hoppaði ég undan hlýrri sænginni og í flíssloppinn minn. En ef ég væri nú svolítið betur upp alin hefði ég bara klætt mig strax og uppgötvað það sem ég var að uppgötva núna aðeins fyrr.
Ég hendi alltaf fötunum á gólfið þegar ég hátta mig, sumpart af því að ég er bara búin að koma mér upp þessum ljóta vana í áranna rás og sumpart af því að það er ekki pláss fyrir stól inni í herberginu mínu. Og þegar ég var yngri las ég í bók að fyrirmyndarmóðir myndi setja föt barnsins á ofn að kvöldi til svo það væri hlýtt og gott að fara í þau að morgni og einhversstaðar las ég það líka að það bæri vott um gott uppeldi að brjóta fötin saman að kveldi til og leggja til á stól fyrir næsta dag. Ég hef aldrei fengið fötin mín lögð á ofn né heldur hef ég náð þeim góða sið að leggja fötin til á stól og hef alltaf talið að þetta sé einkennandi fyrir allt sem er í ólagi í mínu lífi. En áðan fékk ég sönnun fyrir því að líf mitt sé bara í stakasta lagi og ég sé barasta í fínu ásigkomulagi... Því fötin mín sem ég henti á gólfið í nótt og ég fór í voru hlý vegna gólfhitans.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.