Afmælisveisla!!

Það verður afmælisveisla fyrir snáðann í dag og von er á fullt af börnum. Þemað er Spiderman að sjálfsögðu og í fyrsta skiptið keypti ég skreytingu á kökuna (kaka.is). Var ekki alveg að treysta mér í að skreyta spiderman.

ágúst 07 019


Barcelonaferðin...

Í sumar tókum við ákvörðun um að fara í kærustuparaferð til Barcelona, við og tvö önnur pör. Ég hlakkaði svakalega mikið til og ég held að Jónsi hafi líka langað til að fara. En svo kom að því að við þurftum að afpanta ferðina vegna fjárskorts, nokkuð sem er algengt á þessu heimili. Mig langaði til að fara að skæla því ég var búin að borga staðfestingargjaldið og var farin að sjá í hyllingum mósaíkverkin og söfnin og hótelherbergi með engin börn í návígi. En Æðruleysisbænin virkaði á endanum og ég var orðin nokkuð sátt, svekkt en sátt. Í dag hringdi konan sem sá um ferðina og tilkynnti mér að hún væri búin að selja okkar sæti og að við fengum endurgreitt! Mig langar til að kaupa heilan helling fyrir þennan pening en eina ferðina enn verð ég að láta aðra ganga fyrir. Ég er að spá hvenær þessi blessaða bæn mín verður óþörf...


Litli-Karlinn minn.

Hann Karl Jóhann minn á afmæli í dag. Fyrir þremur árum leit þetta fallega barn dagsins ljós. Ég söng fyrir hann afmælissönginn í morgun og hann greip fyrir munnin á mér og sagði USS!
Það er víst ekki sungið fyrir stóra stráka.... Litli-Karl


Draumur.

Hún var nýflutt í bæinn, komin með vinnu í kjörbúðinni í hverfinu. Hún þekkti ekki neinn. Hann vann á lagernum og var greinilega hrifinn af henni. Hann var sá allra mesti hrakfallabálkur sem hún hafði kynnst. Honum tókst oftar en ekki að skella handlyftaranum á tærnar á sér, keyra bílnum utan í þrönga innkeyrsluna á lagerinn, missa úr höndunum á sér alla smákassana rétt áður en hann kom þeim í hillurnar. Það er ekki hægt annað en að finnast svona menn krútt. Þau urðu vinir frá fyrsta degi. Hún var nógu heiðarleg til að segja honum að það væri enginn séns á að það yrði meira á milli þeirra en vinátta. Hann hét Pedro og hafði strokið að heiman 15 ára. Hann hafði aldrei haft áhuga á neinum vandræðum. Hann átti lítið hús í verkamannahverfinu, sá um að garðurinn væri fínn og málaði yfir fúnandi gluggana. Sjálfsagt mætti segja að húsið bar höfuð og herðar yfir hin húsin miðað við umhyggjuna sem eigandinn sýndi því þó vissulega væri hægt að sjá að þar bjó einstaklingur með lág laun. Hann kynnti hana fyrir hinu unga fólkinu í hverfinu eða þeim sem ekki voru í ruglinu. Besti vinur hans hét Jeff og var sjómaður. Hún varð hrifin af honum við fyrsta bros. Hann var stór og vöðvastæltur og útitekinn, henni leið eins smápeði við hliðina á honum. Þau miðuðu upphandleggsvöðva hvors annars og hlógu að mismuninum. Þessar hlýju sumarnætur í þessum mislita hópi fólks sem ekkert átti í raun sameiginlegt nema að vera ung og elska lífið urðu þær skemmtilegustu sem hún hafði upplifað. Hennar dýrmætasta minning. Vinnan með Pedro. Brosið hans Jeff. Leikir í sundlaugum og sjó. Hvernig strákarnir stukku af bryggjunni og Pedro lenti í eina grútarbrákinni í öllum flóanum. Hvernig hún lærði að elska lífið og vini.

 

Ef ég vissi ekki betur myndi ég halda að ég hefði fengið að skyggnast inn í endurminningar einhverrar konu frá einhverri borg því svo lifandi var þessi draumur að ég var væmin þegar ég vaknaði.


Tásulingurinn minn.

Ég er ein heima, börn og maður farin. Mér leiðist, sérstaklega vegna þess að ég má ekki gera neitt. Ekki lyfta neinu eða sópa eða neitt... Gæti það heldur ekki ef ég reyndi því mér er svo illt í bakinu. Ákvað samt að reyna að skrappa smá. Tók mig eiginlega allan gærdaginn því ég gat ekki setið lengi í einu. En þetta er grátóna Bazzill pp og ég teiknaði eftir chipboardi frá FP (því ég tími ekki að nota þau almennilega). Prentaði journalið út á glæru en skrifaði titilinn sjálf.tásulingur

 


Yndislegt!!

Ef ég væri masókisti væri ég í himnaríki núna... Mér tókst að togna á baki.

Koss fyrir mömmu.

Var að klára þessa hér. Ég er ekki frá því að sköpunargleðin hafi aukist eftir að ég fékk svona fína aðstöðu í skúrnum. Þetta er mynd af Sesselju frá því í mars, þegar ég fékk það myndavélaæðið. PP er Basic Grey, color my silly og svartur Bazzill. Hringina gerði ég eftir FP chipboardi sem Hannabeib reddaði mér í sumar. kossTitillinn er úr tréstöfunum frá Li'l Davis og BG límmiðar. En takið eftir hvað ég er snjöll að láta titilinn og journalið enda á sama orðinu!!!

Ég er hermikráka.

Skrappædolið mitt, hún Svana, gerði um daginn svona tösku (hennar var að vísu miklu flottari). Ég ákvað að reyna að gera svona til að prófa... notaði samt ekkert flottan pp í hana þar sem ég var ekkert viss um að þetta myndi takast hjá mér. En útkoman mín er svona.taska


Lasarusinn minn.

Þegar ég og Jónsi ætluðum að fara að sofa í gærkvöldi byrjaði Litli-Karl að skæla. Jónsi fór að gefa honum vatn og kom fram skelkaður... barnið var sjóðheitt og að kafna í hori. Sagðist vera illt í eyrunum. Það var mælt og jújú hiti! Þannig að ég komst ekkert í nýju aukavinnuna mína í dag. En í staðinn fór ég að taka til í skrappdótinu mínu (því það er hægt að fá hjálp lítilla handa við að sortera smádótið). Þegar ég var hálfnuð í að týna saman öll blómin tók ég eftir því að hann var orðinn svolítið slæptur þannig að ég lagði til að hann settist í gamla ömmustólinn sinn með teppi og ég myndi rugga honum. Hann steinsofnaði og svaf í næstum þrjá tíma. Börn eru svo yndisleg þegar þau sofa.

Sjúkdómur leiðindanna...

Ég er búin að passa mikið upp á það að hafa nóg að gera svo ég detti ekki niður í fenið í haust. Búin að ráða mig í aukavinnu og er dugleg að föndra í nýju aðstöðunni minni. En stundum þegar ég er að berjast við þetta er eins og allt vinni á móti mér. Þetta er drulluerfitt og mig langar til að gefast upp og leggjast undir feld... Til að fyrirbyggja allan misskilning er ég að tala um þunglyndið mitt en ekki alkóhólismann. Jónsi fer í staðlotu næstu helgi og ég kvíði svolítið að vera ein en ég veit að það verður ekkert mál frekar en í öll hin skiptin. Það er bara þessi blessaði kvíði... hann hlustar ekki á rök. Svo er það náttúrulega þetta venjulega að það er að líða að lokum mánaðarins og ekki er það að vinna með mér að það kostar Jónsa aura að fara í skólann. Ég er samt ekki að kvarta, bara aðeins að blása út. Ég er mjög sátt við hvar ég er stödd í lífinu en það er þessi blessuðu boðefni sem eru að bögga mig þessa dagana. Æðruleysisbænin er nokkrum sinnum á dag í kollinum á mér en ég vil þolinmæði og það strax!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband