9.1.2007 | 00:33
Og smá sannleikur um sjálfa mig...
Einu sinni var ég stödd á hæli (hvurslagshæli hef ég verið á??) og þar var hægt að horfa á sjónvarp eftir klukkan fimm á daginn. Einn fagran dag sat ég sem fastast fyrir framan imbakassan og beið eftir að barnaefnið byrjaði en eins og alþjóð veit eru táknmálsfréttir ævinlega á undan barnaefninu... Nema hvað ég sit þarna í sakleysi mínu og tilgangsleysi og glápi tómum augum á skjáinn þegar kunningi minn gengur inn í sjónvarpsholið og hlammar sér í næsta sófa og nikkar til mín. Ég nikka til baka og lít aftur á skjáinn gjörsamlega galtóm... Nema svo biður hann mig að hækka aðeins í sjónvarpinu og ég tek fjarstýringuna upp og hækka... Í TÁKNMÁLSFRÉTTUNUM!!!
Ég vek kátínu víða en sjaldan hef ég fengið jafn góð viðbrögð og þá stundina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 22:54
How cute is this??
Magni hvað??
Og svo þessi hér
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2007 | 18:50
Föndurstund!!
Í dag ákvað ég að leyfa miðjubarninu mínu að njóta samvista með móður sinni og það sem okkur finnst skemmtilegast að gera saman er að föndra. Við föndruðum saman nokkur afmæliskort og stelpuskjátunni fer óðar fram í kortagerð. Við létum meira að segja hinn helminginn af okkur vega og meta afraksturinn og hann var nú ekki alveg með það á hreinu hvor okkar gerði hvaða kort... Hvað segir það um föndurhæfileika mína ef ekki er hægt að þekkja mín kort frá kortum eftir fimm ára gamalt barn??
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.1.2007 | 13:52
Allt í góðu lagi...
Það varð svolítið kalt úti í nótt og þegar ég vaknaði í morgun var svolítið kalt inni í húsinu mínu. En þar sem ég á nú alveg forláta hlýjan flísslopp hoppaði ég undan hlýrri sænginni og í flíssloppinn minn. En ef ég væri nú svolítið betur upp alin hefði ég bara klætt mig strax og uppgötvað það sem ég var að uppgötva núna aðeins fyrr.
Ég hendi alltaf fötunum á gólfið þegar ég hátta mig, sumpart af því að ég er bara búin að koma mér upp þessum ljóta vana í áranna rás og sumpart af því að það er ekki pláss fyrir stól inni í herberginu mínu. Og þegar ég var yngri las ég í bók að fyrirmyndarmóðir myndi setja föt barnsins á ofn að kvöldi til svo það væri hlýtt og gott að fara í þau að morgni og einhversstaðar las ég það líka að það bæri vott um gott uppeldi að brjóta fötin saman að kveldi til og leggja til á stól fyrir næsta dag. Ég hef aldrei fengið fötin mín lögð á ofn né heldur hef ég náð þeim góða sið að leggja fötin til á stól og hef alltaf talið að þetta sé einkennandi fyrir allt sem er í ólagi í mínu lífi. En áðan fékk ég sönnun fyrir því að líf mitt sé bara í stakasta lagi og ég sé barasta í fínu ásigkomulagi... Því fötin mín sem ég henti á gólfið í nótt og ég fór í voru hlý vegna gólfhitans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2007 | 01:28
Gleðilegt nýtt ár!!
Það sem stóð upp úr árinu hjá mér er:
Þegar við ákváðum að reyna að kaupa nýtt hús
Þegar við keyptum nýtt hús
Þegar ég skipti um vinnu
Þegar pabbi kom og hjálpaði tengdapabba að smíða inn í nýja húsið
Þegar við fluttum í nýja húsið
Þegar við fórum í sumarfrí og ferðuðumst um landið til að styrkja böndin í familíunni
Þegar ég fékk mitt fyrsta kvíðakast
Þegar stóru stelpurnar mínar samþykktu að fara að æfa íþróttir og sund varð fyrir valinu
Þegar ég fékk greiningu um að ég væri þunglyndissjúklingur með kvíðaraskanir (eins og það sé ekki nóg að vera með vefjagigt!!)
Þegar ég byrjaði á nýjum lyfjum
Þegar ég fór í aðgerð til að loka barnaheimilinu og opna fyrir leikskólann
Þegar ég var næstum búin að fá mér hund
Þegar ég varð þrítug
Og þjóðmálin...
Þegar herinn fór
Þegar allt dótið sem herinn skildi eftir var eyðilagt í staðinn fyrir að endurnýta það
Þegar öll þessi hræðilegu bílslys voru endalaust að gerast Þegar Ómar ákvað að gerast píslavottur Íslenskrar náttúru og lét sig berast með straumnum á Örkinni (mér finnst margur annar maðurinn eiga það skilið að vera kosinn maður ársins því í mínum augum er það ekkert merkilegt að vera fífl.)
Annars er ég svo sjálfhverf að ég eiginlega man ekkert hvað gerðist annað en hjá mér og mínum...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2006 | 15:16
Jólaþrif...
Ég hef sagt það oftar en einu sinni núna í desember en ég er ekki að nenna að standa í þessu jólastússi...
Nú er ég að drullast í þrifin enda ekki seinna vænna þar sem Þorláksmessa er á morgun og sá dagur fullbókaður. Og þó ég segi sjálf frá er ég hetja! Ég hef sett í fjórar þvottavélar í dag og hengt upp, þar sem þurrkarinn er bilaður og allar snúrur uppteknar get ég ekki þvegið meir í bili. Ég er búin að taka til í öllum svefnherbergjum og ryksuga þar og skúra og útigangurinn er hreinn og fínn og verður ennþá hreinni og fínni eftir að Jónsi skellir upp snögunum í þvottahúsið. Á bara eldhúsið og stofuna eftir og ég er ekki að nenna þessu og þess vegna er ég hetja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.12.2006 | 21:33
Jólastress?
Ég held að börnin mín séu eitthvað stressuð vegna jólanna... Þau alla vega eru að fara af límingunum og hlýða engu og rífast yfir öllu. Það er mjög þreytandi að þurfa að standa í þessu ofan á allt hitt því ég er í engu stuði fyrir svona... Og það er farið að vera svolítið freistandi að taka upp flengingar á heimilinu. Við erum búin að halda ræður yfir hausamótunum á þeim bara nokkrum sinnum í desember og það hlýtur engan hljómgrunn. Mér finnst eins og stundum séum við að tala við veggi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.12.2006 | 03:11
Jólasveinarnir syngja og dansa.
Þessi mynd-/hljóðdiskur sem við fjárfestum í er skelfilegur þó ekki sé meira sagt.
Til að byrja með er upphafsvalmyndin á mynddisknum engin valmynd því það er alveg sama hvað maður ýtir á hann byrjar alltaf á einhverjum teiknuðum jólasveini sem situr í stól og hreyfist mjög takmarkað meðan hann fer með vísur Jóhannesar úr Kötlum áður en hinir íslensku jólasveinar bregða á leik með söng og viðeigandi dans... Með misjöfnum árangri þó. Stundum eru hreyfingar í engu samhengi við hvorki persónu þess jólasveins né lagsins. Til dæmis syngur og dansar Stekkjastaur við lagið "Jólasveinninn kemur í útvarpið" en allt í einu er sá jólasveinn furðu lipur í leggjunum og er staddur í fjárhúsi að syngja fyrir rollur sem syngja fyrir hönd barnanna... Svo ekki sé nú minnst á tölvugrafíkina á bak við þessa blessuðu sveina. Þessi tölvugrafík ef svo má kalla er eins og eftir fimm ára barn. En þó mér finnist þetta engan veginn mönnum bjóðandi er minn yngsti alveg dolfallinn yfir þessu þannig að þar með er tilgangnum kannski náð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2006 | 22:32
Jólaskap smjólaskap.
Í nóvember í fyrra dó amma mín úr krabbameini. Við vissum að hún myndi deyja frá því á Hvítasunnunni en samt var ég í svo svaðalegri afneitun á þetta því hún var svo oft búin að fá krabbamein og rísa skellihlæjandi upp úr þeim veikindum. Það var búið að taka bæði brjóstin á henni og annað tvisvar, 10% af lungunum, móðurlífið eins og það lagði sig og skjaldkirtilinn. Fyrir fjórum árum síðan varð hún hjartveik sem þýddi að ekki gat hún farið í svæfingu þannig að þegar upp komst um þetta krabbamein var alveg vitað hvað í stefndi.
Ég hef ekki almennilega náð því að hún sé farin því við vorum svo nánar og ef eitthvað bjátaði á var alveg nóg að heyra í henni eða hitta hana. Ég varð edrú því hún lokaði á mig á endanum.... og það varð til þess að ég áttaði mig á þessu. Ég býst ennþá við símhringingu frá henni þar sem hún skammar mig fyrir það hvað það er langt síðan ég kom í heimsókn með börnin. Hún var amma í fullum skilningi þess orðs.... hringdi í okkur til að heyra andardráttinn í ungabörnunum eða syngja fyrir þau. Hún var æðisleg.
En ég held að jólaskapið mitt hafi dáið með henni því ég er ekki að nenna að standa í þessu stússi.... geri það allra nauðsynlegasta og þarf að minna mig á það á hverjum degi að þetta er gert fyrir börnin. Ef ég mætti ráða myndum við sleppa jólunum að þessu sinni.
_________________
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2006 | 21:06
Pestargemlingur
Ég vaknaði á mánudagsmorgunin stútfull af hori og með hita... Og allt skipulagið fór út um þúfur. En það sem mér finnst samt verst er að Kalli litli missti af jólaballinu á leikskólanum því hann smitaðist af mér og lá í allan dag hálfsofandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)